Innlent

Tveir brutu reglur um sóttkví og tóku strætó heim

Samúel Karl Ólason skrifar
Í dagbók lögreglunnar segir að þau hafi verið kærð og flutt aftur í sóttvarnarhúsið.
Í dagbók lögreglunnar segir að þau hafi verið kærð og flutt aftur í sóttvarnarhúsið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af tveimur í gær sem eru grunaðir um brot á reglum um sóttkví. Fólkið átti að vera í skimunarsóttkví til 24. september en þau skráðu sig úr sóttvarnarhúsi og tóku strætó heim til sín. Í dagbók lögreglunnar segir að þau hafi verið kærð og flutt aftur í sóttvarnarhúsið.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um umferðaróhapp á Reykjanesbraut í gærkvöldi. Þar hafði bíl verið ekið á ljósastaur en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og hafði hann í hótunum við lögregluþjóna. Maðurinn var þó fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar og síðan vistaður í fangageymslu.

Kona var handtekin vegna gruns um nytjastuld bíls og þjófnaðar. Bíllinn sem konan er grunuð um að hafa stolið var komin á önnur skráningarnúmer, sem höfðu einnig verið tilkynnt stolin.

Sömuleiðis var ökumaður stöðvaður á númeralausum og ótryggðum bíl í gær. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og um að keyra ítrekað án réttinda. Nokkur sambærileg mál komu upp í gær.

Í dagbók lögreglunnar segir einnig að tilkynning hafi borist um þjófnað þar sem maður skildi bíl sinn eftir í gangi meðan hann hljóp inn í hús til að sækja hlut. Þegar hann kom út aftur var búið að keyra bílnum að húsi hinu megin við götuna og taka lyklana úr honum.

Þá var ekið á hjólandi konu á Hverfisgötu í gær. Hún var með verki í mjöðm og ætlaði að koma sér á Bráðadeild.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×