Erlent

Dæmdur fyrir á­rásina á nætur­klúbb í Istanbúl á ný­árs­nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Alls létu 39 manns lífið í árásinni á næsturklúbbnum Reina í Istanbúl.
Alls létu 39 manns lífið í árásinni á næsturklúbbnum Reina í Istanbúl. Getty

Dómstóll í Tyrklandi hefur dæmt Úsbekann Abdulkadir Masharipov í lífstíðarfangelsi fyrir hryðjuverkaárásina á næturklúbbi í Istanbúl á nýársnótt 2017. Alls létu 39 manns lífið í árásinni.

Masharipov var dæmdur í það sem samsvarar fjörutíu lífstíðardóma, og mun hann ekki eiga möguleika á reynslulausn. Réttarhöldin hafa nú staðið í um þrjú ár.

Árásin átti sér stað nokkrum mínútum eftir miðnætti á nýársnótt 2017 á næturklúbbnum Reina þar sem mikill fjöldi hafði safnast saman til að fagna nýja árinu. Hryðjuverkasamtökin ISIS lýstu yfir ábyrgð árásinni.

Masharipov var jafnframt dæmdur í 1.368 ára fangelsi til viðbótar fyrir tilraun til morðs á þeim 79 sem særðust í árásinni, sem og ólöglegan vopnaburð. Hann var handtekinn 17. janúar 2017 eftir mikla leit tyrknesku lögreglunnar.

Annar maður, Ilyas Mamasaripov, var dæmdur í rúmlega 1.400 ára fangelsi fyrir að aðstoða Masharipov við framkvæmd árásarinnar. Þá voru 48 manns til viðbótar dæmdir til fangelsisvistar fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum. Ellefu sem voru ákærðir í málinu voru sýknaðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×