Innlent

Halli ríkissjóðs tugum milljörðum meiri en reiknað var með

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjármálaráðuneytið birti uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins í dag.
Fjármálaráðuneytið birti uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins í dag. Vísir/Vilhelm

Ríkissjóður var rekinn með 115 milljarða króna halla á fyrri helmingi ársins og var það 37 milljarða króna lakari afkoma en reiknað var með. Lægri tekjur ríkissjóðs sem áætlun gerði ráð fyrir er sögð skýra umframhallann.

Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins litast verulega af áhrifum kórónveirufaraldursins sem hafa dregið verulega úr efnahagslegum umsvifum. Þannig voru tekjur ríkissjóðs utan fjármunatekna um 38 milljörðum krónum lægri en reiknað var með á tímabilinu. 

Það skýrist af því að frestur til að standa skil á um ellefu milljörðum króna af opinberum gjöldum var framlengdur, tekjuskattur einstaklinga var um tólf milljörðum krónum lægri en áætlað var, virðisaukaskattur var þrettán milljörðum undir áætlun og tryggingagjald sex milljörðum krónum lægri.

Í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að gjöld ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði hafi verið 442 milljarðar króna. Mestu umframgjöld tímabilsins hafi falist í bótum vegna félagslegrar aðstoðar og í sérhæfðri sjúkraþjónustu, um tveir milljarðar í hvorn málaflokk.

Langtímalán ríkissjóðs hækkuðu um 92 milljarða króna frá lokum árs 2019 og námu þau 843 milljörðum króna í lok júní.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×