Innlent

Sam­þykktu laga­breytingar til að mæta efna­hags­á­hrifum veirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Breytingarnar voru samþykktar með 57 atkvæðum. Sex voru fjarverandi.
Breytingarnar voru samþykktar með 57 atkvæðum. Sex voru fjarverandi. Vísir/vilhelm

Alþingi samþykkti á þriðja tímanum breytingar á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þar er m.a. um að ræða breytingar á lögum um tímabundnar launagreiðslur til fólks í sóttkví og atvinnuleysistryggingar. Þingmenn stjórnarandstöðu sögðu lögin til bóta en vildu að gengið yrði lengra í aðgerðum.

Lögin fela m.a. í sér að framlengingu á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í sex mánuði og tryggir fólki á atvinnuleysisbótum rétt til að fara í nám. Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa í sóttkví verða framlengd til áramóta. Breytingarnar voru samþykktar með 57 atkvæðum. Sex voru fjarverandi.

Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði aðgerðirnar til bóta. Það sem væri „ámælisvert og hreinlega til skammar“ að í frumvarpinu væri ekki stafkrókur um þá tólf þúsund sem þurfa að framfleyta sér á grunnatvinnuleysisbótum. „Sennilega þykir stjórnarliðum grunnatvinnuleysisbæturnar fullgóðar fyrir þennan hóp,“ sagði Oddný.

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata sagði aðgerðirnar einnig til bóta. Aftur á móti endurspeglaði málið „glötuð tækifæri til að gera betur, meira og suma hluti öðruvísi“. Hann studdi málið en kvaðst vona að tækifærin yrðu framvegis betur nýtt.

Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins sagði að frumvarpið næði of stutt. Það væri ansi slæmt að standa á þingi og horfa fram á það að félagsmálaráðherra „skilji eftir foreldra langveikra og alvarlegra fatlaðra barna“ og þeirra réttindi til launa í sóttkví.

Meirihluti Alþingis felldi í gær breytingartillögu úr röðum stjórnarandstöðu um að heimild til greiðslu launa í sóttkví yrði látin ná til foreldra langveikra og mikið fatlaðra barna, sem og breytingartillögu um hækkun grunnatvinnuleysisbóta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×