Innlent

Ótvíræður árangur af landamæraskimun

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Forsætisráðherra segir ótvírætt að tvöföld landamæraskimun eftir kórónuveirunni hafi skilað árangri. Þeim sem greinist á landamærunum hafi fjölgað verulega.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði í dag með formönnum stjórnarflokkanna, stjórnarandstöðuflokkanna, landlækni, sóttvarnalækni og fulltrúum almannavarna um kórónuveirufaraldurinn. Farið var yfir stöðu og þróun faraldursins og þær sóttvarnaráðstafanir sem gripið hefur verið til.

Stjórnvöld eru nú að meta hvenær hægt verður að draga úr þeim takmörkunum sem eru í gildi vegna faraldursins og hvernig staðið verður að því. Forsætisráðherra á ekki von á því að hætt verði á næstunni að skima farþega tvisvar við komuna til landsins.  

„Skimanir á landamærum, ef við bara skoðum gögnin, þá erum við að sjá hlutfallslega aukningu í smitum sem eru að greinast á landamærum. Við erum líka að sjá að seinni skimunin er að skila árangri. Það er að segja við erum að grípa það smit sem ekki er að greinast við fyrri skimun. Þannig það er alveg ótvírætt að þessi aðgerð er að skila árangri,“ segir Katrín. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í dag að frá því að sýnatakan var tekin upp á landamærunum og til 19. ágúst hefðu 0,04 prósent af öllum sýnum reynst jákvæð. Jákvæðu sýnunum hafi fjölgað verulega síðustu tvær vikurnar. „Eftir hérna nítjánda þá eru þau 0,3% eða tífaldast hlutfallslega. Þannig ég hef vissar áhyggjur af því að ef að þessi þróun heldur áfram og við gerum kannski lítið og slökum verulega á skimuninni þá munum við fá fleiri smit hérna inn.“ 

Katrín segir lítið hægt að segja um það núna hvenær hægt verður að draga úr skimunum á landamærum. „Það er kannski ekki fyrirsjáanlegt en við höfum sagt það að við ætlum að endurskoða þetta með mjög reglulegum hætti og í þeirri endurskoðun byggjum við auðvitað á þeim gögnum sem við erum að fá.“


Tengdar fréttir

Á ekki von á grundvallarbreytingum á landamærum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á ekki von á því að hann leggi til einhvers konar grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi landamæraskimuna og sóttvarna í tengslum við það

„Deginum ljósara“ að aðgerðirnar stöðvi komur ferðamanna

Það er deginum ljósara að hertar aðgerðir stjórnvalda við landamæraskimun stöðva allar komur ferðamanna til landsins. Þetta segir Kristófer Oliversson, formaður FHG – Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri Center Hotels í kvöldfréttum Stöðvar 2.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×