Erlent

Fimm börn fundust látin í íbúð í Þýska­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Börnin fundust í íbúð í fjölbýlishúsi við Hasselstraße í Solingen.
Börnin fundust í íbúð í fjölbýlishúsi við Hasselstraße í Solingen. getty

Lögregla í Þýskalandi hefur staðfest að fimm börn hafi fundist látin í íbúð í bænum Solingen í Norðurrín-Vestfalíu. Móðir barnanna er grunuð um að hafa orðið þeim að bana.

„Já, ég get staðfest að fimm börn hafi fundist látin. Þau fundust í íbúð í fjölbýlishúsi við Hasselstraße í Solingen. Rannsókn er í fullum gangi og ég get ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir Jan Battenberg, talsmaður lögreglunnar í Wuppertal.

Þýski fjölmiðillinn Bild segir að móðir barnanna sé grunuð um að hafa orðið þeim að bana. Börnin voru átta, sex, þriggja, tveggja og eins árs. 

Amma barnanna er sögð hafa komið að börnunum og tilkynnt lögreglu að 27 ára dóttir sín hafi farið ásamt ellefu ára syni sínum af vettvangi með það að markmiði að svipta sig lífi.

Bild segir ennfremur frá því að hin grunaða hafi stokkið fyrir lest á aðallestarstöðinni í Düsseldorf, komist lífs af og sé nú í haldi lögreglu. Ellefu ára sonur hennar sé einnig á lífi.

Á myndum frá Solingen má sjá fjölda sjúkrabíla fyrir utan fjölbýlishúsið.

Tilkynnt var um málið skömmu fyrir klukkan 14 að staðartíma, eða hádegi að íslenskum tíma.

Solingen er að finna austur af Düsseldorf.

Fólki með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×