Alls hafa 32 seljendur pakkaferða hér á landi sótt um að fá samtals 2,4 milljarða úr Ferðaábyrgðasjóði, sem stofnaður var til að aðstoða ferðaskrifstofur til að greiða endurgreiðslukörfur vegna pakkaferða sem ekki voru farnar vegna kórónuveirufaraldursins.
Þetta kemur fram í frumvarpi til breytinga á lögum sem taka til Ferðaábyrgðasjóðsins sem stofnaður var í júlí eftir að Alþingi samþykkti lög þess efnis.
Sjóðurinn var settur á fót þar sem ekki allar ferðaskrifstofur hér á landi hafa getað staðið undir lögboðnum endurgreiðslum á pakkaferðum sem hefur verið aflýst eða þær afbókaðar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Sjóðnum er ætlað að veita umræddum ferðaskrifstofum lán til þess að standa skil á endurgreiðslum til neytenda og tryggja rétt þeirra, auk þess að aðstoða ferðaskrifstofur sem standa höllum fæti vegna erfiðs rekstrarumhverfis um þessar mundir.
Atvinnuveganefnd hefur nú lagt til að frestur til þess að sækja um greiðslur úr sjóðnum verði framlengdur um tvo mánuði, til 1. nóvember næstkomandi, en samkvæmt gildandi lögum um sjóðinn rann fresturinn út í gær.
Alls fékk fjármála- og efnahagsráðherra heimild til þess að leggja allt að 4,5 milljarða inn í sjóðinn. Segir í greinargerð frumvarpsins að þar sem umsóknir í sjóðinn hafi numið 2,4 milljörðum undir lok ágústmánaðar ætti framlenging tímabilsins til þess að sækja um lán að rúmast innan þeirra fjárheimilda sem lagt var upp með að veittar yrðu úr sjóðnum.