Innlent

Tripi­cal bíður eftir næstu skrefum ríkis­stjórnarinnar

Sylvía Hall skrifar
Elísabet Agnarsdóttir er eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical.
Elísabet Agnarsdóttir er eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical. Vísir

Elísabet Agnarsdóttir, eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical, segir ekkert liggja fyrir um framhaldið hjá ferðaskrifstofunni fyrr en ríkisstjórnin hefur ákveðið næstu skref. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að skila inn ferðaskrifstofuleyfinu.

„Við tökum bara ákvörðun þegar að því kemur. Við þurfum bara að sjá hvað gerist hjá ríkisstjórninni, það er lykilatriði,“ segir Elísabet í samtali við Vísi.

Ferðaskrifstofan hefur verið til umfjöllunar, meðal annars vegna útskriftarferðar Menntaskólans á Akureyri til Ítalíu sem fyrirhuguð var þann 8. júní síðastliðinn. Fengu nemendur minna en sólarhring til þess að ákveða sig hvort þeir væru reiðubúnir til þess að fara í ferðina.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að málið væri komið í hendur lögmanna og væri meðal annars til skoðunar að höfða dómsmál.

Meirihluti fjárlaganefndar hefur lagt til með breytingartillögu að bætt verði við heimild í fyrirliggjandi frumvarp til fjáraukalaga að Ferðaábyrgðasjóður geti greitt kröfur vegna endurgreiðslu pakkaferða. Þannig geti sjóðurinn lánað ferðaskrifstofum undir markaðsvöxtum svo þær geti endurgreitt viðskiptavinum.

Elísabet segir slíkt skipta öllu máli og vonast til að staðan skýrist frekar í vikunni. Það sé erfitt fyrir fyrirtækið að bjóða 100 prósent endurgreiðslu á einhverju sem búið er að kaupa.

„Við erum bara að bíða eftir því hvað kemur hjá ríkisstjórninni og tökum næstum skref eftir það. Það hlýtur að koma í ljós í vikunni. Um leið og það er komið erum við tilbúin með hvað við ætlum að gera“

Hér að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 um málið fyrr í mánuðinum. 


Tengdar fréttir

Tripical-deilan komin á borð lögmanna

Eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical er ósammála um að henni beri skylda að endurgreiða nemendum Menntaskólans á Akureyri útskriftarferð þeirra. Málið er komið í hendur lögmanna og foreldri skoðar að höfða dómsmál.

Tripi­cal mun ekki endur­greiða nem­endum MA vegna út­skriftar­ferðar

Ferðaskrifstofan Tripical mun ekki endurgreiða nemendum Menntaskólans á Akureyri vegna útskriftarferðar sem raskaðist vegna heimsfaraldurs. Formaður neytendasamtakanna segir að ferðaskrifstofunni beri að endurgreiða nemendum ferðina. Ferðafélag Menntaskólans á Akureyri hefur sett sig í samband við lögfræðing.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×