Innlent

Sauðburður hafinn í Fljótshlíð

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sauðburður er hafin á bæ í Fljótshlíð en þar bar ærin Ramóna tveimur lömbum, gimbur og hrút. Fjórir hrútar koma til greina sem feður lambanna.

Þó það sé fátt sem minni á vorið þessa dagana vegna mikilla snjóa og kulda þá styttist óðum í vorið. Gott dæmi um það er nýfædd lömb, sem voru að koma í heiminn á bænum Grjótá í Fljótshlíð.

 

Ásta Þorbjörnsdóttir er bóndi á bænum Grjótá. Hún er með um 100 fjár en hún átti alls ekki von á því að sauðburður myndi hefjast svona snemma í ár.

„Þau hafa orðið til um tuttugasta október löngu fyrr en hrútarnir eru teknir. Þetta eru falleg lömb og burðurinn gekk þetta, þetta eru hrútur og gimbur. Hún fékk nafnið Góa, sem auðvelt var að finna og svo heitir hann eftir vikudeginum, hann heitir Týr því þau fæddust á þriðjudegi, eða Týsdegi“, segir Ásta.

 

 

 

 

Ramóna og Góa í fjárhúsinu á Grjótá.Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Mamma lambanna heitir Ramóna en þetta eru fyrstu lömbin hennar.

„En faðernið er mjög óljóst á þeim því það eru fjórir hrútar, sem koma til greina, það eru lausaleikur í Fljótshlíðinni“, segir Ásta og hlær.

Ásta segist vera komin í vor og sumarskap fyrst lömb eru komin í fjárhúsið hennar.

„Já, maður finnur aðeins svoleiðis þó að það sé hörkuvetur úti og allt á kafi í snjó, þá er þetta fyrsti vorboðinn“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×