Innlent

Samninga­við­ræður Eflingar og borgarinnar í öng­stræti

Heimir Már Pétursson skrifar
Samningaviðræður Eflingar og Reykjavíkurborgar eru komnar í algert öngstræti.
Samningaviðræður Eflingar og Reykjavíkurborgar eru komnar í algert öngstræti. vísir/vilhelm

Samningaviðræður Eflingar og Reykjavíkurborgar eru komnar í algert öngstræti. Deiluaðilar hafa ekki ræðst við frá því hurðum var skellt í Karphúsinu fyrir viku og Efling setur borgarstjóra skilyrði fyrir að formaður félagsins eigi með honum fund.

Ekkert hefur verið fundað í deilu Eflingar og Reykjavíkurborgar frá því á miðvikudag í síðustu viku. Skilaboð gengu á milli herbergja en sameiginlegur fundur var stuttur og lauk með hurðaskellum. Deilan snýst orðið að stórum hluta um hvað borgarstjóri sagði eða sagði ekki í viðtali í Ríkissjónvarpinu fyrir hálfum mánuði um tilboð borgarinnar og hafa orðsendingar gengið á víxl á milli formanns Eflingar og borgarstjóra síðustu daga.

Nú síðast í morgun svaraði formaður Eflingar boði borgarstjóra um fund með færslu á Facebook síðu hans. Þar setur formaðurinn tvö skilyrði fyrir fundinum. Að tilboð samninganefndar borgarinnar á fundi hjá ríkissáttasemjara hinn 19. febrúar verði birt opinberlega til að bera það saman við yfirlýsingar borgarstjóra og að borgarstjóri og formaðurinn eða annar fulltrúi Eflingar mætist í útvarpi eða sjónvarpi fyrir lok vikunnar. Borgarstjóri þáði ekki boð fréttastofunnar um að mæta formanninum í Íslandi í dag í kvöld og sagði það í verkahring samninganefnda að semja.

Juan Carlos þurfti að taka þriggja ára dóttur sína með í vinnuna í dag vegna verkfalls Eflingar.stöð 2

Á meðan deiluaðilar ræðast ekki við en stangast á í fjölmiðlum eru foreldrar leikskólabarna margir farnir að ókyrrast. Foreldrafélagið í leikskólanum Hlíðar skorar á deiluaðila að setjast af alvöru við samningaborðið og hætta sandkassaleik. Fjöldi foreldra, eins og Juan Carlos Chocolatl sem vinnur hjá ræstingarfyrirtæki, hefur líka þurft að finna lausnir á pössun fyrir börn sín undanfarnar rúmar tvær vikur. Þriggja ára dóttir hans var með honum í vinnunni í dag.

„Stundum er hún með mömmu sinni og stundum með mér. Við höfum verið að skiptast á með hana.“

Ertu sáttur við þetta ástand?

„Nei. En svona verður þetta að vera. Þau verðskulda að fá launahækkun þannig að þótt ég sé ekki ánægður með þetta þá styð ég þau ennþá,“ segir Juan Carlos.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×