Innlent

Komu tveimur skíða­göngu­mönnum til bjargar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg óskuðu mennirnir, óljóst þó, eftir aðstoð í gegnum tengilið sinn í Kanada.
Að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg óskuðu mennirnir, óljóst þó, eftir aðstoð í gegnum tengilið sinn í Kanada. vísir/vilhelm

Björgunarsveitin Dalbjörg í Eyjafirði var kölluð út fyrr í dag vegna tveggja skíðagöngumanna sem ætluðu sér að þvera hálendi Íslands frá norðri til suðurs.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg óskuðu mennirnir, óljóst þó, eftir aðstoð í gegnum tengilið sinn í Kanada.

Þar sem upplýsingar voru ekki skýrar var ekki vitað nákvæmlega um ástand mannanna en þeir hefðu þó gert rétt í undirbúningi sínum, voru í sambandi við Safetravel og höfðu skilið þar eftir ferðaáætlun sína sem og aðgang að ferli sínum í gegnum neyðarsendi.

Þar af leiðandi var hægt að sjá allar upplýsingar um mennina svo og staðsetningu auk þess sem haft var samband við tengilið varðandi nánari upplýsingar.

Að því er segir í tilkynningu Landsbjargar fóru tveir vélsleðamenn úr Eyjafirði fyrr í dag og gátu ekið beint til mannanna þar sem þeir voru í tjaldi við Svíná austan Urðavatna ofan við Eyjafjörð.

Var annar mannanna orðinn kaldur og blautur og áttu þeir því í erfiðleikum með að snúa til byggða eða halda áfram. Því var beðið eftir björgunarsveitarbifreið úr Eyjafirði sem flutti mennina til Akureyrar.

Voru þeir komnir til byggða um fimmleytið samkvæmt upplýsingum frá Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Það amaði í sjálfu sér ekkert að þeim heldur lentu þeir í vandræðum eftir að annar þeirra blotnaði og tókst ekki að þurrka bleytuna almennilega. Að öðru leyti voru þeir hraustir og sprækir.

Fréttin var uppfærð klukkan 18:06.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×