Innlent

Gular viðvaranir í gildi víða í dag

Eiður Þór Árnason skrifar
Reikna má með því að það verði vindasamt víða á landinu í dag.
Reikna má með því að það verði vindasamt víða á landinu í dag. Vísir/vilhelm

Gul viðvörun vegna veðurs er í gildi í dag á Suðurlandi, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi. Má sums staðar reikna með allt að 25 metrum á sekúndu og geta akstursskilyrði víða verið erfið.

Nú með morgninum má búast við austan kalda 8 til 15 m/s eða strekkingi á landinu, en hvassara með suðurströndinni 18 til 23 m/s í vindstrengjum. Skýjað á landinu og gæti orðið vart við dálítil él sunnan- og austanlands, er kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Seint í dag snýst svo til norðaustanáttar 10 til 18 m/s og vindstyrkur eykst heilt yfir, strekkingur eða allhvass vindur verður algengur, en hvassari strengir undir Vatnajökli. Éljagangur austanlands og vestur eftir norðanverðu landinu. Úrkomulaust á Suðvestur- og Vesturlandi.

Það var kalt á landinu í nótt og mest mældist 23 stiga frost við Mývatn. Í dag dregur úr frostinu og verður það yfirleitt á bilinu 0 til 5 stig seinnipartinn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag: Norðan 10-18 m/s og él eða snjókoma norðan- og austanlands, en úrkomulaust sunnan heiða. Frost 1 til 6 stig.

Á mánudag: Norðaustan 8-15 m/s og dálítil él á norðanverðu landinu, frost 3 til 8 stig. Austlægari sunnanlands og snjókoma með köflum, frost 0 til 5 stig.

Á þriðjudag og miðvikudag: Austan- og norðaustanátt og dálítil él, en yfirleitt þurrt á vestanverðu landinu. Frost 1 til 8 stig.

Á fimmtudag: Austlæg átt og líkur á snjókomu í flestum landshlutum. Áfram kalt í veðri.

Á föstudag: Norðlæg átt og lítilsháttar él með norður- og austurströndinni, en léttskýjað sunnan- og vestanlands. Herðir á frosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×