Innlent

Hvassviðri og snjókoma í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það mun eitthvað snjóa á Vestfjörðum í dag.
Það mun eitthvað snjóa á Vestfjörðum í dag. vísir/samúel

Það er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðaustan- og austanátt í dag en hægari vindur verður þó austan lands. Þá mun stór hluti höfuðborgarsvæðisins vera í þokkalegu skjóli að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Allvíða á norðurhelmingi landsins mun snjóa, ýmist í formi élja eða samfelldri snjókomu. Sunnan lands má síðan búast við slyddu eða snjókomu því úrkomubakki verður þar viðloðandi. Faxaflóasvæðið sleppur þó að mestu við úrkomu í dag. Hiti verður í kringum frostmark.

„Á morgun (laugardag) er minnkandi norðanátt í kortunum með dálitlum éljum, en yfirleitt úrkomulaust sunnan til á landinu. Það kólnar smám saman í veðri.

Á sunnudag gera spár ráð fyrir að gangi í stífa vestan- og suðvestanátt með éljagangi, en þurrt og bjart veður um landið austanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Norðaustan og austan 13-20 m/s í dag, en hægari vindur austanlands. Snjókoma eða él um landið norðanvert, slydda eða snjókoma sunnanlands, en þurrt að mestu við Faxaflóa. Hiti kringum frostmark.

Norðlæg átt 8-13 á morgun og él, en þurrt sunnan til á landinu. Vægt frost. Lægir undir kvöld og kólnar meira.

Á laugardag:
Norðlæg átt 5-13 m/s og él, en þurrt að kalla sunnanlands. Frost 0 til 4 stig. Lægir um kvöldið og kólnar.

Á sunnudag:
Suðvestan- og vestanátt, víða 10-15 og él, en bjartviðri um landið austanvert. Frost 0 til 6 stig.

Á mánudag:
Suðlæg átt 5-10. Snjókoma á Suður- og Vesturlandi, en bjart veður norðaustan til á landinu. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Austlæg eða breytileg átt og líkur á éljum eða snjókomu í flestum landshlutum. Áfram frost um allt land.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.