Innlent

GPS-tækjum stolið úr vinnuvélum

Sylvía Hall skrifar
Tækin sem um ræðir eru verðmæt og því mikið tjón fyrir eigendur.
Tækin sem um ræðir eru verðmæt og því mikið tjón fyrir eigendur. Vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar tvö innbrot í vinnuvélar. Innbrotin áttu sér stað í febrúarmánuði en GPS-tækjum var stolið í báðum tilfellum.

Þá hefur einnig verið tilkynnt um samskonar innbrot á Norðurlandi þar sem GPS-tækjum var stolið. Lögregla telur sennilegt að málin tengist með einhverjum hætti enda eiga innbrotin sér að jafnaði stað um helgar og þá að kvöld- eða næturlagi.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að töluverð verðmæti séu fólgin í tækjunum og því mikið tjón fyrir eigendur vélanna.

Lögreglan hvetur eigendur og umráðamenn vinnuvéla til þess að vera á varðbergi og gera viðeigandi ráðstafanir. Til að mynda sé sniðugt að fjarlægja slík tæki úr vélunum þegar þær eru ekki í notkun ef það er hægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×