Fótbolti

Hólmbert gæti verið alvarlega meiddur

Ísak Hallmundarson skrifar
Hólmbert í leik með Álasund
Hólmbert í leik með Álasund vísir/getty

Hólmbert Aron Friðjónsson, leikmaður Álasund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta, var borinn af velli í æfingaleik liðsins gegn Molde í gær.

Á heimasíðu Álasund segir að Hólmbert hafi meiðst á hné, án snertingar við nokkurn annan leikmann. Því er óttast að hann gæti verið með slitið krossband og misst af öllu komandi keppnistímabili sem hefst í byrjun apríl. 

Þjálfari liðsins hefur stórar áhyggjur af meiðslunum og er ekki bjartsýnn á að Hólmbert verði með á tímabilinu, sem lýkur í lok nóvember. 

Hólmbert er fæddur árið 1993 og hefur verið leikmaður Álasund síðan árið 2018. Síðustu tvö tímabil lék liðið í næstefstu deild í Noregi en þeir unnu 1. deildina í fyrra og tryggðu sér þátttökurétt í úrvalsdeildinni í ár. Þetta væri þá fyrsta tímabil Hólmberts í norsku úrvalsdeildinni ef hann nær að jafna sig á meiðslunum áður en keppni lýkur. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×