Innlent

Ferðalangar fylgist vel með veðurspám

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fólki er bent á að fylgjast vel með verðuspám, hyggi það á ferðalög.
Fólki er bent á að fylgjast vel með verðuspám, hyggi það á ferðalög. Vísir/Vilhelm

Djúp lægð vestur af Írlandi veitir raka og hvassri austanátt yfir landið en vegna þess hve kalt loft er í kringum landið myndast litlar lægðabólur úti á hafi og stjórna vindáttum og úrkomu á landinu. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Á austanverðu landinu heldur áfram að snjóa fram undir hádegi, en þokkalegasta veður verður vestan til. Síðdegis gengur síðan snjókomubakki frá austri til vesturs yfir landið. Samhliða bakkanum hvessir hratt af austri.

Gera má ráð fyrir hvassviðri eða stormi og skafrenningi syðst og suðaustanlands í kvöld og nótt, og víðar um landið á morgun.

Athygli er vakin á því að skipulag ferðalaga getur auðveldlega farið úr skorðum við aðstæður sem þessar og ferðalöngum því bent á að fylgjast grannt með viðvörunum og veðurspám.

Veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands:

Mánudagur:

Austan 8-18 m/s, hvassast við S-ströndina. Bjart með köflum N- og V-lands, en él á SA- og A-landi. Hiti kringum frostmark en vægt frost inn til landsins.

Þriðjudagur:

Austan 8-15 A-til, annars hægari. Slydda eða snjókoma með köflum, hiti breytist lítið.

Miðvikudagur:

Suðlæg átt og léttir til N-lands. Annars dálítil él og líklega snjókoma um tíma á Vestfjörðum. Frost 0 til 8 stig, kaldast norðan heiða.

Fimmtudagur:

Norðaustanátt, skýjað með köflum og él N-til á landinu. Frost 0 til 8 stig. Á föstudag: Norðanátt og él, en léttskýjað sunnan heiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×