Erlent

Johnson stokkar upp í ríkisstjórn sinni og fjármálaráðherrann segir af sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Sajid Javid sagði af sér sem fjármálaráðherra frekar en að verða við afarkostum Johnson.
Sajid Javid sagði af sér sem fjármálaráðherra frekar en að verða við afarkostum Johnson. Vísir/EPA

Fjöldi ráðherra var rekinn í óvæntri uppstokkun Boris Johnson forsætisráðherra á bresku ríkisstjórninni í morgun. Sajid Javid sagði jafnframt af sér sem fjármálaráðherra eftir að Johnson gerði kröfu um að hann ræki alla ráðgjafa sína.

Julian Smith, ráðherra málefna Norður-Írlands, Andrea Leadsom, viðskiptaráðherra, Esther McVey, húsnæðismálaráðherra, og Theresa Villiers, umhverfisráðherra, eru á meðal þeirra ráðherra og hátt settra embættismanna sem Johnson ruddi út úr ríkisstjórninni í morgun.

Javid hafnaði kröfu Johnson um að hann léti alla ráðgjafa sína fara og réði í staðinn ráðgjafa forsætisráðuneytisins. Ráðherrann á að hafa svarað því til að enginn ráðherra með „sjálfsvirðingu“ gæti sætt sig við slíka afarkosti. Breska ríkisútvarpið BBC segir að afsögn Javid komi í kjölfar sögusagna um stirt samband hans við Dominic Cummings, aðalráðgjafa Johnson forsætisráðherra.

Í stað Javid, sem átti að kynna fyrstu fjárlög sín eftir mánuð, kemur Rishi Sunak sem var áður aðstoðar húsnæðismálaráðherra fyrir rúmu hálfu ári.

Forsætisráðuneytið hefur staðfest að aðrir áhrifamiklir ráðherrar eins og Dominic Raab, Michael Gove og Priti Patel séu ekki á förum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×