Innlent

„Glórulaus blindbylur“ þegar skollinn á við Sólheimasand

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Útsýnið úr bíl á Þjóðvegi 1 við Sólheimasand fyrr í kvöld.
Útsýnið úr bíl á Þjóðvegi 1 við Sólheimasand fyrr í kvöld. Mynd/Sigurður

Búið er að loka þjóðvegi 1 á milli Seljalandsfoss og Víkur í Mýrdal. Lögreglumaður sem var á ferðinni þar áðan segir veðrið glórulaust á þessum slóðum í augnablikinu.

Líkt og komið hefur fram er gert ráð fyrir ofsaveðri á Suðurlandi á morgun, og reyndar víðar. Rauð veðurviðvörun tekur gildi klukkan sex en svo virðist sem að veðrið sé þegar farið að láta á sér kræla.

Sjá einnig: Óveðursvaktin - Rauð viðvörun gefin út

Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi hafði hugsað sér að fara að bílastæðinu við gönguleiðina að flugvélarflakinu á Sólheimasandi til að loka gönguleiðinni, eftir að björgunarsveitin Víkverji gekk úr skugga um að enginn var á svæðinu.

Hann sneri við á miðri leið.

„Ég sá bara ekki neitt þannig að ég óskaði eftir því að það yrði lokað. Það er bara glórulaus blindbylur hérna,“ segir Sigurður í samtali við Vísi. „Ég lagði ekki í meir og sneri bara við og er þakklátur fyrir að vera kominn í Vík.“

Skýr skilaboð.Mynd/Sigurður

Á morgun er gert ráð fyrir miklu hvassviðri og hættulegum vindhviðum við fjöll á Suðurlandi, staðbundið yfir 55 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum. Snjókoma með köflum og mikill skafrenningur líklegur.

Áhrif lægðarinnar eru þegar farin að koma fram að sögn Sigurðar sem staddur er í Vík.

„Það er svo mikil ofankoma að það sést ekki neitt. Björgunarsveitin er búinn að draga upp allavega fimm bíla í Mýrdalnum og við erum bara að snúa fólki við hérna.“


Tengdar fréttir

Lögregla vill að Eyjamenn taki óveðurspána alvarlega

Lögreglan í Vestmannaeyjum bendir að afar slæm veðurspá er fyrir landið og hefur veðurstofan sett á appelsínugula viðvörun fyrir landið allt. Veðrið verður verst á spásvæði Suðurlands og þar eru Vestmannaeyjar undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×