Innlent

Þakklæðningar fjúka á haf út á Kjalarnesi

Samúel Karl Ólason skrifar
Björgunarsveitarmenn frá Akranesi eru á leið á Kjalarnes á þungum og brynvörðum bíl sem þolir mikinn vind og brak.
Björgunarsveitarmenn frá Akranesi eru á leið á Kjalarnes á þungum og brynvörðum bíl sem þolir mikinn vind og brak. Vísir/Jóhann

Nokkrir hópar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg eru að störfum á Kjalarnesi þar sem mikið hefur borist af tilkynningum um foktjón. Björgunarsveitarmenn eiga þó erfitt með að athafna sig vegna vinds og hættu frá fjúkandi braki. Björgunarsveitarmenn frá Akranesi eru á leið á Kjalarnes á þungum og brynvörðum bíl sem þolir mikinn vind og brak.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir nóg um að vera hjá björgunarsveitum landsins og fyrstu tilkynningar hafi borist um eitt leytið í nótt vegna foks í Vestmannaeyjum. Núna sé ástandið þó hvað verst á Kjalarnesi, þar séu þakklæðningar „bókstaflega að fjúka á haf út“.

Á höfuðborgarsvæðinu voru hópar frá björgunarsveitunum klárir í húsum frá klukkan sex í morgun og er fólk Landsbjargar í viðbragðsstöðu víða um land.

Núna upp úr sjö fóru að berast tilkynningar um verkefni á Suðurnesjum og Davíð segir stöðuna passa við spár Veðurstofunnar.

Fréttamenn okkar komust ekki upp á Kjalarnes í morgun vegna veðurs. Jóhann K. Jóhannsson sagði í fréttum Bylgjunnar klukkan sjö að þeir hafi átt í vandræðum með að opna dyrnar á bíl þeirra við norðurenda Mosfellsbæjar, þar sem myndin hér að ofan er tekin.


Tengdar fréttir

62 m/s á Kjalarnesi

Aðgerðastjórn gerir ráð fyrir að aftakaveður gangi inn á höfuðborgarsvæðið núna klukkan 7

Best að reikna með því versta

"Það er þá bara bónus ef það verður aðeins minna,“ segir Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×