Innlent

Vélbáturinn Blátindur sökk við bryggju í Vestmannaeyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Blátindur er gamall bátur og hefur legið við bryggju að mestu til skrauts.
Blátindur er gamall bátur og hefur legið við bryggju að mestu til skrauts. Tigull.is

Hinn sögufrægi vélbátur, Blátindur, sökk í höfninni í Vestmannaeyjum í morgun. Fyrst losnaði báturinn frá bryggju og flaut út á höfnina. Að endingu tókst þó að draga hann aftur að bryggju og sökk hann þar. Göt voru gerð á bátinn til að koma í veg fyrir að hann losnaði frá bryggju. Það virðist þó ekki hafa dugað til.

„Við fórum á Lóðsinum og náðum honum. Komum honum upp að bryggju áður en hann sökk, svo hann myndi ekki sökkva inn í höfninni. Við vissum að hann myndi sökkva,“ segir Andrés Þ. Sigurðsson, hafnsögumaður, í samtali við Vísi.

„Af því að hann flaut upp, þá urðum við að koma honum á einhvern stað þar sem hann yrði ekki fyrir.“

Blátindur er gamall bátur og hefur legið við bryggju að mestu til skrauts. Hann flaut í um 20 til 30 mínútur eftir að honum var náð aftur upp að bryggju, áður en hann sökk.

Blátindur var smíðaður í Eyjum árið 1947. Hann var gerður út þaðan til ársins 1958 þegar hann var seldur og gerður út frá ýmsum verstöðvum vestan og norðan lands. Þá var skipið notað sem varðskip á Faxaflóa sumrin 1950 og 1951 og var Blátindur þá búinn fallbyssu.

Samkvæmt Eyjafréttum var Blátindur endurgerður að frumkvæði áhugamannafélags um endurbyggingu vélbátsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.