Erlent

Alræmt glæpagengi réðst inn í dómshús til að frelsa leiðtoga sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Herlögreglumenn bera fallinn félaga sinn út úr dómshúsinu í El Progreso.
Herlögreglumenn bera fallinn félaga sinn út úr dómshúsinu í El Progreso. Vísir/EPA

Að minnsta kosti fjórir lögreglumenn voru skotnir til bana og þrír særðust til viðbótar þegar þungvopnaðir liðsmenn glæpasamtakanna MS-13 réðust inn í dómshús í norðvestanverðu Hondúras og frelsuðu leiðtoga sinn sem réttað var yfir þar. Einn árásarmannanna féll í áhlaupinu.

MS-13, einnig þekkt sem Mara Salvatrucha, eru talin ein ofbeldisfyllstu og hættulegustu glæpasamtök Mið-Ameríku. Alexander Mendoza, sem gengur undir viðurnefninu „El Porky“, er talinn einn helsti forsprakki gengisins. Hann var tekinn höndum árið 2015 og dæmdur í tuttugu ára fangelsi fyrir peningaþvætti og aðild á glæpasamtökum. Mendoza beið jafnframt dóms vegna fjölda morða, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Um tuttugu liðsmenn glæpagengisins eru sagðir hafa verið klæddir í herklæði og lögreglubúninga þegar þeir réðust inn í dómshúsið í bænum El Progreso, um þrjátíu kílómetrum austur af San Pedro Sula, næststærstu borg Hondúras.

Myndbandsupptökur sýna handjárnaðan Mendoza inni í dómshúsinu ásamt lögreglumönnum. Skömmu síðar sést hann án handjárnanna og vopnaður hríðskotabyssu og skammbyssu. Til skotbardaga kom á milli glæpamannanna og lögreglu inni í byggingunni.

Juan Orlando Hernández, forseti Hondúras, hefur heitið hverjum þeim sem veitir upplýsingar sem leiða til handtöku Mendoza jafnvirði rúmra tíu milljóna íslenskra króna í verðlaun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.