Fótbolti

Ísak Bergmann kom Norrköping á bragðið með marki frá miðju í 4-2 sigri á Blikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði á móti Blikum.
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði á móti Blikum. Getty/Alex Grimm

Sænska úrvalsdeildarfélagið Norrköping vann 4-2 sigur á Pepsi Max deildarliði breiðabliks í æfingarleik í Svíþjóð í dag en Blikar eru í æfingaferð í Svíþjóð fyrir komandi tímabil.

Hinn sextán ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði fyrsta mark Norrköping í leiknum og það eftir aðeins fimm mínútna leik.

Ísak Bergmann er frá Akranesi og sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar, þjálfara meistaraflokks ÍA. Honum virðist vera ætlað stórt hlutverk hjá sænska liðinu á komandi tímabili. Ísak Bergmann heldur upp á sautján ára afmælið í næsta mánuði.

Ísak vann boltann á miðjunni og skoraði yfir Anton Ara Einarsson í marki Blika en Anton stóð of framarlega í markinu og strákurinn ungi var fljótur að hugsa.


Norrköping komst í 3-0 í leiknum en staðan var 3-1 í hálfleik. Blikar minnkuðu muninn í 3-2 en Svíarnir áttu lokaorðið.

Thomas Mikkelsen skoraði fyrra mark Blika í lok fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Gísla Eyjólfssyni.

Seinna mark Blika skoraði Viktar Karl Einarsson með góðu skoti af stuttu færi.

Hin mörk Norrköping liðsins skoruðu þeir Carl Björk, Sead Haksabanovic og Lars Krogh Gerson.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.