Innlent

Viðvörunin orðin appelsínugul fyrir Suðausturland

Kjartan Kjartansson skrifar
Verst verður veðrið undir Öræfajökli á morgun.
Verst verður veðrið undir Öræfajökli á morgun. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan varar nú við norðaustan stórhríð á Suðausturlandi annað kvöld og hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun í stað gulrar. Gul viðvörun vegna veðurs tekur gildi fyrir allt landið utan suðvesturhornsins um miðjan dag á morgun og á að vera fram á fimmtudagskvöld.

Kröpp og dýpkandi lægð stefnir nú á landið og á að hvessa hressilega úr austri og síðan norðaustri á morgun. Upphaflega voru gefnar út gular veðurviðvaranir um mest allt landið en viðvörunin fyrir Suðausturland hefur nú verið uppfærð í appelsínugula á milli klukkan 17:00 og 22:00 á morgun.

Á Suðausturlandi er nú spáð norðaustan 18-28 metrum á sekúndu með talsverðri snjókomu eða slyddu, hvössustu í Mýrdal og við Öræfajökul þar sem vindhviður geta farið yfir 35 metra á sekúndu. Varað er við að ekkert ferðaveður verði á þeim slóðum. Gul viðvörun tekur gildi klukkan 14:00 á morgun og gildir fram á fimmtudagsmorgun.

Viðvaranir í öðrum landshlutum taka gildi um miðjan dag eða snemmkveldis á morgun. Sums staðar, eins og á Vestfjörðum gilda þær fram á fimmtudagskvöld. Alls staðar er spáð hvassviðri eða stormi með snjókomu eða hríðaveðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.