Innlent

Um 80 skjálftar í nágrenni Grindavíkur frá miðnætti

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá hluta Grindavíkur og fjallið Þorbjörn.
Hér má sjá hluta Grindavíkur og fjallið Þorbjörn. Vísir/Vihelm

Nú klukkan níu varð jarðskjálfti að stærð 3,3 um tvo kílómetra norðaustur af Grindavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Um 80 jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu frá miðnætti. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni.

Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að Veðurstofunni hafi ekki borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist.

„Áframhaldandi jarðskjálftavirkni mælist á svæðinu, en dregið hefur úr hrinunni. Frá miðnætti hafa um 80 jarðskjálftar mælst. Enn er verið að fara yfir minni skjálftana og búast má við því að staðsetningar á þeim skjálftum á vefsíðu Veðurstofunnar geti breyst eftir úrvinnslu,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að GPS-úrvinnsla Veðurstofunnar sýni áframhaldandi landris vestan við fjallið Þorbjörn. Í heildina hafi land þar risið um 4,5 sentimetra frá 20. janúar síðastliðnum. Líklegast sé að skjálftavirknin stafi af spennubreytingum vegna landriss á svæðinu.

Loks segir að samfara landrisi og breytingum í jarðskorpu megi búast við áframhaldandi skjálftavirkni.


Tengdar fréttir

„Það var eins og trukkur hefði keyrt á húsið okkar“

Íbúum í Grindavík var verulega brugðið þegar stórir skjálftar riðu yfir í gærkvöldi. Síðasta sólarhring hafa meira en 700 jarðskjálftar mælst í grennd við bæinn, sá öflugasti 4,3 að stærð. Talið er að skjálftarnir séu afleiðingar landriss en ekki merki um gosóróa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×