Innlent

Flutti inn tæplega hálft kíló af kókaíni innvortis

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Maðurinn var dæmdur í 10 mánaða fangelsi.
Maðurinn var dæmdur í 10 mánaða fangelsi. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi á fimmtudaginn portúgalskan karlmann í tíu mánaða fangelsi fyrir innflutning á 488 grömmum af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Maðurinn flutti fíkniefnin innvortis, í samtals 49 hylkjum, í flugi frá Madríd á Spáni.

Í dóminum segir að af gögnum málsins verði ekki ráðið að maðurinn hafi verið eigandi fíkniefnanna sem um ræðir, né heldur að hann hafi tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra með öðrum hætti en að hafa samþykkt að flytja efnin inn gegn greiðslu.

Hins vegar gat dómurinn ekki litið fram hjá því að maðurinn hafi flutt talsvert magn kókaíns, sem ætlað var til söludreifingar, hingað til lands. Að öllum gögnum málsins virtum var tíu mánaða fangelsisdómur því talin hæfileg refsins. Til frádráttar refsingarinnar kemur gæsluvarðhald sem maðurinn hefur sætt frá 1. desember síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×