Leikarinn Danny McBride, sem hefur vakið athygli fyrir hlutverk sín í Eastbound & Down, Vice Principals og The Righteous Gemstones, segir í viðtali við Shortlist að Íslandsför hafi breytti lífi hans.
McBride var spurður í viðtalinu hvað hann væri að horfa á í sjónvarpinu um þessar mundir.
„Ég horfi sárasjaldan á afþreyingarefni þar sem ég er alltaf að vinna. Oftast geymi ég allt sem mig langar að sjá og tek það allt yfir jólin,“ segir McBride sem bætir við að hann hafi í raun farið í „stafræna afeitrun“ á síðasta ári og það hér á Íslandi.
„Síðasta ár var rosalegt fyrir mig og ég vann allt of mikið. Ég fór með fjölskyldunni til Íslands í frí og við dvöldum í smáhýsi þar sem ekki var hægt að horfa á sjónvarp. Það er svo mikið að gerast alltaf heima hjá okkur. Flatskjáir út um allt og börnin að horfa á YouTube allan daginn. Svo eru heimsfréttirnar alltaf svo neikvæðar. Þú vaknar kannski í góðu skapi en um leið og þú kveikir á sjónvarpinu ferðu í vont skap,“ segir McBride og heldur áfram.
„Svo fer ég í þessa ferð og gerði ekkert nema lesa. Mér leið svo miklu betur og setti mér því það markmið að lesa 50 bækur á einu ári, og það tókst. Þetta ætla ég mér að gera á hverju einasta ári. Um leið og mig langaði að kíkja á netið eða fara inn á samfélagsmiðla tók ég upp bók og byrjaði að lesa. Mig langar að hugsa um heiminn út frá mínum hugsunum, mig langar ekki að einhver sé að segja mér hvernig heimurinn er. Ég tók mér því langa pásu frá öllu þessu áreiti.“