Innlent

Hafði mælst á 190 kílómetra hraða áður en slysið varð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bílaröð myndaðist á slysstað.
Bílaröð myndaðist á slysstað. Mynd/Vegagerðin.

Ökumaður mótorhjóls sem missti stjórn á hjólinu á þjóðvegi 1 um Kambana síðastliðinn föstudag hafði mælst á 190 kílómetra hraða við Ölkelduháls. Hann slasaðist ekki alvarlega en loka þurfti veginum á meðan viðbragsaðilar störfuðu á vettvangi slyssins.

Líkt og greint var frá á föstudaginn varð slysið síðdegis á föstudaginn og sjá mátti langar bílaraðir við slysstað á meðan viðbragsaðilar sinntu ökumanninum og gengu frá vettvangi.

Í færslu á vef Lögreglunnar á Suðurlandi segir að ökumaðurinn hafi misst stjórn á mótorhjólinu og lent utan í víravegriði við veginn. Ökumaðurinn kastaðist yfir á öfugan vegarhelming, en vegriðið greip hjólið. Meiðsl ökumannsins reyndust eins og fyrr segir ekki alvarleg.

Í færslunni segir einnig að lögreglumenn sem verið höfðu við hraðamælingar á Hellisheiði til móts við Ölkelduháls höfðu gefið manninum stöðvunarmerki eftir að hraði hjólsins hafði mælst 190 kílómetrar á klukkustund.

„Hann virti stöðvunarmerkin engu, virðist hafa aukið við hraðann, og hvarf úr sjónmáli,“ segir í færslunni, en skömmu eftir þessa hraðamælingu varð slysið og óku lögreglumennirnir sem gáfu ökumanninum stöðvunarmerki fram á slysið.

Þá segir einnig að fleiri ökumenn hafi ekið hratt á þessum slóðum en tölur eins og 138 og 141 hafi sést á mælum lögreglu. Fimmtán þessara mála séu á vegum þar sem leyfður hraði er ýmist 50 eða 70 kílómetrar á klukkustund.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×