Innlent

Gæti orðið erfitt fyrir heilsu­gæsluna á lands­byggðinni

Sylvía Hall og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Reynst gæti orðið erfitt fyrir heilsugæsluna á landsbyggðinni að sinna skimunareftirliti með breyttum reglum, fari svo að margir ferðamenn viðhafi sóttkví þar. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu býr sig undir að ráða tugi skimunarmanna á næstu dögum.

Með breyttu fyrirkomulagi á landamærunum sem tekur gildi á miðvikudag munu öll þau sem koma til landsins þurfa að fara í tvær kórónuveiruskimanir; aðra á landamærunum og svo að nokkrum dögum liðnum meðan beðið er í sóttkví.

Seinni skimunin fer fram á átta stöðum á landinu að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem sýni séu tekin alls staðar þar sem veikindi koma upp.

„Það er þannig að þegar við erum að tala um seinni skimunina, ef það safnast fyrir óvenju margir ferðamenn á einn stað á landinu í seinni skimun, hlutfallslega miðað við þá íbúa sem þar búa, þar verður auðvitað erfiðara að manna sýnatökurnar," segir Óskar.

„Við viljum ekki leggja allt heilbrigðiskerfið undir. Það er auðveldara á höfuðborgarsvæðinu þar sem margir búa og auðveldara að skaffa sér vinnuafl til þess að sinna sýnatökunni.“

Búast við því að ráða inn fleiri 

Óskar segist eiga von á því að það þurfi að ráða starfsfólk til þess að geta sinnt sýnatökunni. Þó sé ekki vitað hversu marga þurfi til viðbótar enda óvissu háð hversu margir koma hingað.

„Óvissan er töluverð, við vitum aldrei hversu margir ferðamenn verða en ef þetta er eins og núna – jafnmargir ferðamenn, þá þurfum við að bæta töluvert mikið af starfsfólki við. Einhverja tugi kannski,“ segir Óskar.

Hann hefur ekki miklar áhyggjur af því að það muni reynast erfitt að finna starfsfólk.

„Það er ótrúlegt hvernig það hefur gengið, en auðvitað getur það svo sem reynst erfitt þegar kemur að skóla og vetri. Ég veit það ekki en við förum í það. Við höfum góða samstarfsaðila sem við gerum samninga við og þjálfar upp fólk fyrir okkur og með okkur. Það hefur gengið hingað til en það getur hvenær sem er orðið erfitt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×