Innlent

Allir ferðamennirnir komnir úr lífshættu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins við Háöldukvísl á Skeiðarársandi.
Frá vettvangi slyssins við Háöldukvísl á Skeiðarársandi. Þórður Grétarsson

Ferðamennirnir sem lentu í hörðum árekstri á Suðurlandsvegi á föstudag eru allir útskrifaðir af gjörgæslu og komnir úr lífshættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum.

Níu ferðamenn frá Frakklandi og Suður-Kóreu voru í tveimur bílum sem lentu í árekstri við Háöldukvísl á Skeiðarársandi síðdegis á föstudag. Sjö voru fluttir slasaðir af vettvangi með þyrlum Landhelgisgæslunnar á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, þar af þrjú börn.

Þrjú börn og einn fullorðinn voru enn á gjörgæslu á laugardag. Tvö barnanna voru þá sögð alvarlega slösuð. Samkvæmt upplýsingum Landspítalans eru börnin þrjú nú öll á barnadeild ásamt föður sínum, sem er útskrifaður af sjúkrahúsi.

Móðir barnanna liggur inni á bæklunardeild Landspítalans. Enginn er því lengur á gjörgæslu og allir komnir úr lífshættu, líkt og áður segir.

Nýlega voru opnuð legurými á efri hæð bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Spítalinn hefur sagt að þökk sé þessum nýju rýmum hafi verið hægt var að takast á við slysið með „eðlilegum hætti“. Mikið hefur verið fjallað um álag og plássleysi á bráðamóttökunni undanfarið.

Hópslysaáætlun var virkjuð þegar tilkynning barst um slysið skömmu fyrir klukkan tvö á föstudag og Suðurlandsvegi lokað við slysstað.

Tildrög slyssins eru enn ekki alveg ljós. Grímur Hergerisson settur lögreglustjóri á Suðurlandi sagði þó í samtali við Vísi á föstudagskvöld að svo virtist sem annar bíllinn hefði farið yfir á öfugan vegarhelming og lent framan á hinum bílnum, sem kom úr gagnstæðri átt. Börnin sem slösuðust alvarlega í slysinu voru öll í öðrum bílnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×