Innlent

Vilja framkvæma jafnréttismat áður en tillaga um styttri leikskóladag verður samþykkt

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Vísir/Vilhelm

„Þetta ýtir frekar undir átök og kvíða frekar heldur en að ná sátt,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, þegar hann flutti tillögu flokksins á borgarstjórnarfundi í dag um að fallið verði frá áformum um að stytta opnunartíma í leikskólum borgarinnar.

Meirihluti skóla-og frístundaráðs Reykjavíkur samþykkti í síðustu viku tillögu stýrihóps um að opnunartími leikskóla verði styttur um hálftíma þannig að þeir loki klukkan hálf fimm í stað fimm frá og með 1. apríl. Málið er sem stendur statt hjá borgarráði en þessi tímalína, sem miðast við 1. apríl, mun ekki standast ef marka má orð Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar og formanns borgarráðs, á borgarstjórnarfundi í dag.

Þórdís Lóa sagði að á fundi borgarráðs á föstudaginn verði lögð fram tillaga um að fram fari ítarlegt jafnréttismat áður en tillaga skóla- og frístundaráðs verður samþykkt. Óskað verði eftir umsögnum allra hlutaðeigandi hagsmunaaðila, meðal annars frá Félagi foreldra leikskólabarna, Heimili og skóla og frá hagsmunasamtökum starfsmanna leikskóla.

„Þetta er hagsmunamál sem snertir marga og því mikilvægt að sú ákvörðun verði tekin að vel undirbúnu mál og hlustað sé bæði á foreldra og leikskólana,“ sagði Þórdís Lóa. Jafnréttismatið sé liður í því.

„Sem hluti af þessu mati verði talað við alla foreldra sem erum með dvalarsamning eftir klukkan 16:30 og aðstæður þeirra og afstaða til tillagnanna kannaðar. Greina á sérstaklega þann hóp foreldra sem hugsanlega ætti erfitt með að mæta þessari breytingu og skoða möguleika á mótvægisaðgerðum til að koma til móts við þá,“ sagði Þórdís Lóa.

Í þessu ljósi lagði Þórdís Lóa til að tillögu Sjálfstæðisflokksins yrði vísað frá, enda sé málið enn á borði borgarráðs. Tillagan hefur verið afar umdeild en eftir að borgarstjórnarfundur hófst klukkan tvö í dag barst borgarfulltrúum til að mynda ályktun frá Kvenréttindafélagi Íslands þar sem ákvörðun skóla- og frístundarás er harðlega mótmælt.

Samhliða umræðu um tillögu Sjálfstæðisflokksins fóru fram almennar umræður um áformin sem borgarstjórnarflokkar Miðflokksins, Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins fóru fram á. Þegar þetta er skrifað standa umræður um málið enn yfir á fundi borgarstjórnar og ekki hafa verið greidd atkvæði um tillögu Sjálfstæðisflokksins. 


Tengdar fréttir

Vonar að styttur opnunartími leikskóla verði aprílgabb

Tillaga um að fallið verði frá skerðingu á opnunartíma á leikskólum Reykjavíkurborgar verður lögð fram í borgarstjórn á morgun. Oddviti Sjálfstæðismanna segist finna mikinn stuðning við tillöguna og vonar að fyrirhuguð breyting þann fyrsta apríl verði aprílgabb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×