Veruleg óánægja er uppi á Akranesi vegna brasks með leiguhúsnæði í bæjarfélaginu. Heimavellir leigufélag keypti 18 íbúðir á sínum tíma af Íbúðalánasjóði. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri segir að þessar íbúðir hafi félagið fengið á sérkjörum vegna frómra fyrirheita þess efnis að kaupin væru liður í að skapa tryggan leigumarkað á Akranesi. Nú hafa Heimavellir selt þessari íbúðir og eru leigjendur að missa húsnæði sitt á næstu mánuðum. Mikil óánægja er vegna málsins.
Það var þungt hljóðið í Sævari Frey þegar Bítið ræddi við hann í morgun. Bæjarstjórinn sagði það vissulega svo að svona væri markaðurinn, eignir gangi kaupum og sölum.
„Þarna er um að ræða að það fara í einu vettvangi ansi stór hluti íbúða sem eru á leigumarkaði á Akranesi. Heimavellir hafa verið að draga sig af þessum markaði örfáum árum eftir að þeir fengu að kaupa þessar íbúðir á sérkjörum einmitt til að búa til tryggan leigumarkað.“
Sævar Freyr segir framkvæmdastjóra Heimavalla hefur upplýst að þeir telji sig hafa uppfyllt öll skilyrði.
„Þannig að ekki hafa þau verið ströng. Auðvitað umhugsunarvert og þessar 18 eignir er það skref sem við erum að sjá núna en fleiri eignir hafa verið að fara af leigumarkaði hjá Heimavöllum. Ég hefði viljað fá betri svör hvers vegna fyrirtækið er að draga sig af markaði, er viðskiptamódel þeirra ekki að ganga upp; hvað kallar á að þeir taka þessar ákvarðanir og skilja fólk eftir með þessum hætti?“
Fjöldi fólks á götunni
Heimavellir er félag skráð á markaði og vandséð að það teljist óhagnaðardrifið leigufélag í ljósi þess.
„Hins vegar voru þessar eignir allar inni í Íbúðalánasjóði, sem nú heitir húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Seldar á sérkjörum einmitt til að búa til þetta úrræði að fólk gæti fengið öruggt húsnæði á leigumarkaði. Þannig var þetta kynnt á sínum tíma og það var fyrir örfáum árum síðan.“

Það stefnir því í að fjöldi fólks sé að missa leiguíbúðir sínar, innan örfárra mánaða því leigusamningar eru að renna út. Strax í mars og apríl þurfa þeir að rýma húsnæðið. Og þannig verður gangurinn á því næstu 12 mánuði eða svo að sögn bæjarstjórans.
Hin ríkisdrifna Bríet til bjargar
„Heimavellir hafa selt eignina og fjárfestirinn sem kaupir í staðinn, sem við berum á engan hátt kala til, er að stunda hefðbundin viðskipti.“
Hann kaupir íbúðir til að selja þær á hærra verði og græða.
„Já, það er ekki við hann að sakast.“
En, þið eruð súrir út í Heimavelli?
„Já, en hvað getum við gert? Þetta eru almennir leigjendur á markaði,“ segir Sævar Freyr. Bæjaryfirvöld eiga fund með forstjóra húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og þar verður skoðað hvort leigufélagið Bríet, opinbert leigufélag í eigu ríks, geti komið til aðstoðar.