Viðskipti innlent

Kauphöllin hafnar beiðni Heimavalla um skráningu af markaði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Heimavellir verða á markaði um sinn.
Heimavellir verða á markaði um sinn. Fréttablaðið/Stefán
Kauphöllin hefur hafnað beiðni Heimavalla hf. um töku hlutabréfa úr viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Telur Kauphöllin að slíkt geti haft neikvæð áhrif á trúverðugleika markaðarins og afskráning sé til þess fallin að valda fjárfestum verulegu tjóni.

Þetta kemur fram í svari Kauphallar við beiðni Heimavalla um afskráningu sem birt er á vef Kauphallarinnar. Tillaga um að taka hlutabréf félagsins úr viðskiptum var samþykkt á aðalfundi félagsins, innan við ári eftir að félagið var skráð á markað, með 81,3 greiddra atkvæða.

Ýmsar röksemdir voru tilteknar fyrir afskráningunni, þar á meðal að félagið hafi ekki fengið góðar móttökur frá ýmsum stórum aðilum á íslenska hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðinum, sem komi meðal annars skýrt fram í verðlagningu á hlutabréfum félagsins sem hafi frá skráningu verið verðmetin á um 35 prósent undir bókfærðu virði efnahagsreiknings félagsins.

Í ákvörðun Kauphallar segir að verulega muni draga úr seljanleika hlutabréfa félagsins ef beiðni félagsins um töku hlutabréfa þess úr viðskiptum nær fram að ganga. Einnig er ljóst að við töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum tapast sú fjárfestavernd sem hluthafar njóta samkvæmt lögum og reglum er lúta að verðbréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Þá hafi hafi hluthafar að baki 18,7 prósent atkvæða á aðalfundi greitt atkvæði gegn töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum. Telur Kauphöllin að um verulega hátt hlutfall sé að ræða og samræmist það mati annarra kauphalla í nágrannaríkjum okkar er lúta að megni til sama regluverki og gildir hér á landi.

Ljóst sé að þessir hluthafar geti „frosið inni“ með eignarhluti sína komi til þess að hlutabréf félagsins verið tekin úr viðskiptum að því er segir í ákvörðun Kauphallar.

„Á grundvelli ofangreindra atriða telur Kauphöllin að taka hlutabréfa félagsins úr viðskiptum sé til þess fallin að valda fjárfestum verulegu tjóni. Þá telur Kauphöllin með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið hér á undan að taka hlutabréfa félagsins úr viðskiptum gæti haft neikvæð áhrif á trúverðugleika markaðarins. Sérstaklega lítur Kauphöllin til þess að hluthafar að baki 18,7 prósent  atkvæða á aðalfundi greiddu atkvæði gegn tillögunni um töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum. Telur Kauphöllin að um verulega hátt hlutfall sé að ræða,“ segir í ákvörðun Kauphallarinnar.


Tengdar fréttir

Eignasala Heimavalla gæti tekið fjögur ár

Búist er við því að Heimavöllum verði slitið ef tillaga um afskráningu félagsins úr kauphöll verður samþykkt. Tafsamt gæti orðið að selja fasteignir félagsins, sér í lagi á Suðurnesjum. Greinandi Capacent segir andstöðu verkalýðsfélaga gagnvart leigufélögum óskiljanlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×