Innlent

Landris nánast ekkert í gær

Birgir Olgeirsson skrifar
Virkjun HS Orku í Svartsengi sem er í nágrenni Þorbjarnar.
Virkjun HS Orku í Svartsengi sem er í nágrenni Þorbjarnar. Vísir/Vilhelm

„Það er að draga úr landrisinu,“ segir Benedikt Ófeigsson, séfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfingu hjá Veðurstofu Íslands, um GPS-mælingar á svæðinu við Þorbjörn og Svartsengi.

Hingað til hefur landrisið verið um 3 – 4 millimetrar á dag en í gær var það nánast ekkert.

Benedikt var einn þeirra sem sat íbúafund í Grindavík á mánudag. Þar var spurt hversu mikið landrisið þyrfti að vera svo sérfræðingar færi að hafa verulegar áhyggjur af gosi. Benedikt svaraði á fundinum að landrisið væri þá lítið en stöðugt og það gæti haldist þannig lengi. Ef breytingar yrðu hins vegar á landrisinu eða skjálfatvirkni væri það tilefni til að endurmeta viðbúnað.

Benedikt segir í samtali við fréttastofu í dag að þessi breyting á landrisinu frá því í gær gæfi þó ekki tilefni til þess. Um sé að ræða langtímaatburð og því þurfi að fylgjast með svæðinu og mælingum þar til lengri tíma til að átta sig betur heildarferli jarðhræringanna.

Þó svo að landrisið hefði minnkað þá hefur ekki dregið úr skjálftavirkni á svæðinu.

„Við erum ekki að hafa áhyggjur eins og er,“ segir Benedikt. „Það sem gerist frá degi til dags segir ekkert rosalega mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×