Innlent

Ökuskírteini brátt aðgengileg í síma

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hefðbundið íslenskt ökuskírteini. Það verður fljótlega aðgengilegt á stafrænu formi.
Hefðbundið íslenskt ökuskírteini. Það verður fljótlega aðgengilegt á stafrænu formi. Vísir/KTD

Stafræn íslensk ökuskírteini líta dagsins ljós í vor. Þau verða aðgengileg úr farsímum og mun þessu að líkindum fylgja þægindi fyrir fólk, að mati dómsmálaráðherra, enda síminn oft með í för. Frá þessu greindi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á Twitter-síðu sinni nú síðdegis.

Þar segir hún jafnframt að unnið hafi verið að gerð stafrænna ökuskírteina á síðustu mánuðum, sú vinna hafi verið á borði Stafræns Íslands og Ríkislögreglustjóra. Snjallsímaþjónustu sé sífellt að verða öruggari sem gerir mögulegt að gefa út ökuskírteini á öðru formi en hinu hefðbundna plasti.

Þannig urðu Norðmenn fyrsta ríkið í Evrópu til að bjóða upp á rafræn ökuskírteini í síma í október síðastliðnum. Norskir ökumenn þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því þó þeir gleymi skírteininu heima því þeir geta framvísað stafrænu ökuskírteini, séu þeir stöðvaðir af lögreglu. Til að fá ökuskírteini í símann í Noregi þarf að hala niður smáforriti og skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Um leið birtast allar upplýsingar um þau ökuréttindi sem viðkomandi hefur. Norðmenn geta þó bara framvísað ökuskírteini í gegnum símann í Noregi.

„Nú er tæknileg útfærsla tilbúin og ekkert því til fyrirstöðu að hefja útgáfu á stafrænum ökuskírteinum fyrir snjallsíma, jafnt fyrir Android og iOS stýrikerfi. Notendur mun geta fengið stafrænu ökuskírteinin með því að sækja um þau á Íslandi með rafrænum skilríkjum,“ skrifar Áslaug Arna og bætir við að stefnt sé að því að koma stafrænu skírteinunum í gagnið á Íslandi fyrir 1. júní næstkomandi.

Áslaug Arna ræddi breytingarnar í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Viðtalið má heyra að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×