Lífið

Ingibjörg í toppstandi á níræðisaldri: Gengur allt, fer mikið í ræktina og komin með kærasta

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ingibjörg er í fantaformi á níræðisaldri.
Ingibjörg er í fantaformi á níræðisaldri.

Ingibjörg Leifsdóttir fyrrverandi læknaritari er orðin 81 árs en er nýbyrjuð í World Class á fullu og gefur líkamsræktin henni mikið.

Í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær fór Vala Matt og heimsótti þessa ótrúlegu kjarnakonu sem hefur gengið í gegnum ýmislegt í lífinu en gefst aldrei upp. Hún á tvö uppkomin börn og fjölda barnabarna.

En hver er lykillinn að hennar langlífi og góðri heilsu?

„Ég er búin að hreyfa mig allt mitt líf og einhvern veginn finnst mér ávinningur af því að hreyfa sig. Svo er svo gaman að fara í líkamsræktina og það er fullt af fólki að gera saman hlutinn. Þetta ýtir svo á mann og maður verður svo áhugasamur,“ segir Ingibjörg.

„Mér líður mjög vel þegar ég er búin að þessu öllu og mér finnst þetta það besta sem ég hef fundið upp á. Núna er ég að hugsa aftur í tímann og hvað var ég eiginlega að gera? Af hverju gerði ég þetta ekki fyrr. Það er aldrei of seint að byrja í hverju sem þú ert að gera.“

Gengið á sjö fjöll

Ingibjörg hefur alla tíð gengið mikið og aldrei átt bíl.

„Ég bý á þeim stað þar sem ég þarf ekki á bíl að halda, en strætó er alltaf til taks en ég get gengið um allt. Svo er ég búin að ganga á sjö fjöll og er bara stórlega ánægð með það.“

Ingibjörg er komin með nýjan kærasta.

„Við skulum nú ekkert vera minnast á það en mér finnst það bara gaman. Mér finnst það bara voða gaman en ég ætla ekkert að tala sérstaklega um hann. Það er bara svo gaman að hafa félaga.“

Ingibjörg og kærastinn búa ekki saman.

„Það borgar sig ekkert annað þegar maður er komin á þennan aldur. Það þarf ekki nema annað deyi þá er maður á kalda klakanum aftur. Það er gott að eiga sitt heimili og vera sjálfstæður.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.