Innlent

Íslendingurinn leiddur fyrir dómara í morgun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Torrevieja á Spáni. Fjöldi Íslendinga býr í borginni og nágrenni hennar.
Frá Torrevieja á Spáni. Fjöldi Íslendinga býr í borginni og nágrenni hennar. vísir/getty

Guðmundur Freyr Magnússon, fertugur Íslendingur sem handtekinn var í Torrevieja á Spáni aðfaranótt sunnudags, grunaður um að hafa orðið sambýlismanni móður sinnar að bana, var leiddur fyrir dómara í morgun.

Þetta segir Beatriz Garcia, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Alicante, í samtali við Vísi. Hún segir að dómarinn muni í dag taka afstöðu til gagna lögreglu í málinu, meðal annars sönnunargagna og framburði vitna, og úrskurða svo hvort Guðmundur muni sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins.

„Þá mun dómarinn einnig geta sagt okkur hvert er ákæruatriðið, hver er glæpurinn sem maðurinn gæti hafa framið. Hvort þetta er manndráp af gáleysi eða ásetningi. […] Þetta vitum við ekki fyrr en dómarinn hefur tekið afstöðu þar sem það er hægt að flokka manndráp mismunandi eftir alvarleika þess,“ segir Garcia.

Sjá einnig: Segir son sinn hafa kastað gaskút í gegnum rúðu fyrir ódæðið

Úrskurðurinn verður kveðinn upp í dag, að öllum líkindum eftir hádegi. Garcia getur að öðru leyti lítið tjáð sig um málið þar sem það er enn varið rannsóknarhagsmunum.

Hún getur til að mynda ekki svarað því hver aðkoma íslenskra lögregluyfirvalda sé í málinu en Vísir greindi frá því í gær að spænska lögreglan hefði óskað eftir aðstoð lögreglunnar hér á landi við rannsóknina.

Garcia staðfestir þó að hinn látni sé einnig Íslendingur og að atburðurinn hafi gerst í hverfinu Los Balcones í Torrevieja aðfaranótt sunnudags, eins og greint var frá í gær. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×