Innlent

Þrjátíu daga fangelsi fyrir að taka myndir af konu í sturtu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í síðustu viku karlmann í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tekið myndir af konu í sturtuklefa. Þá var manninum gert að greiða konunni miskabætur.

Maðurinn var ákærður í nóvember síðastliðnum fyrir kynferðisbrot með því að hafa kvöld eitt í október smeygt síma sínum undir skilrúm á sturtuklefa kvenna ónafnsgreinds húsnæðis og tekið myndir af konu sem þar var að baða sig.

Maðurinn játaði skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Dómurinn leit til játningar hans og iðrunar, sem hann er sagður hafa sýnt, við ákvörðun refsingar. Þá var sími hans af gerðinni Huawei, sem notaður var við brotið, gerður upptækur þrátt fyrir andmæli ákærða.

Þá krafðist konan 600 þúsund króna í bætur. Dómurinn féllst á það að brotið hefði haft áhrif á líðan hennar og mat það svo að hæfilegar miskabætur væru 200 þúsund krónur. Manninum var einnig gert að greiða málsvarnarþóknun bæði skipaðs verjanda síns og réttargæslumanns konunnar, samtals tæpar 600 þúsund krónur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.