Innlent

„Það var hlegið að mér þegar ég viðraði áhyggjur af varnargörðunum“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Guðrún Pálsdóttir ásamt eiginmanni sínum Einari Guðbjartssyni áttu bátinn Blossa sem sökk í snjóflóði í gær.
Guðrún Pálsdóttir ásamt eiginmanni sínum Einari Guðbjartssyni áttu bátinn Blossa sem sökk í snjóflóði í gær. Mynd/Aðsend

Eigandi útgerðarfyrirtækis sem er meðal þeirra sem missti bátinn sinn í snjóflóðinu á Flateyri í gær er afar ósátt við að varnagarðar við bæinn hafi ekki haldið betur aftur af flóðunum. Það hafi verið hlegið að henni þegar hún gerði athugasemd við þá á sínum tíma. Nú treysti fólk ekki lengur að fullu á garðana.

Sex bátar sukku við smábátahöfnina á Flateyri í gær þegar annað snjóflóðið féll í gær. Smábátabryggjan gjöreyðilagðist og flotbryggja slitnaði. Guðrún Pálsdóttir útgerðakona er ein af þeim sem missti bátinn sinn í flóðinu.  

Eftir hin hrikalegu snjóflóð sem féllu á Flateyri þann þann 26. október 1995 var byrjað að huga að snjóflóðavörnum og varnargörðum fyrir ofan bæinn. Guðrún segir að á kynningarfundi um varnargarðana á sínum tíma hafi hún viðrað áhyggjur sínar af staðsetningu þeirra. 

„Þegar var verið að reisa garðana var kynningarfundur með íbúum hér á svæðinu um hvernig þetta átti að líta út. Ég stóð upp á fundinum og benti á að mér fyndist garðurinn liggja þannig að ef það kæmi hamfaraflóð þá myndi það fara beina leið niður á smábátabryggju. Mér var svarað af mönnum sem sögðu: Nei, það stoppar í litla lóninu, litla lónið tekur það. Ég keypti ekki þetta svar og segi: Ef það fer niður í smábátahöfn eru þá eigendur tryggðir fyrir snjóflóðum? Það var hlegið að mér þegar ég viðraði áhyggjur af varnargörðunum. Þetta situr í mér eftir það sem nú er búið að gerast,“ segir Guðrún.

Hún segir að aðrir varnargarðar hafi líka brugðist.

„Það er líka skrítið að það hafi farið annað flóð yfir ytri garðinn á annað hús, við sem héldum að við værum tryggilega varin með þessum varnargörðum. Ég held við séum mjög efins í dag. Þetta þarf að skoða og lagfæra svo íbúar hér á Flateyri geti sofið rólegir.“


Tengdar fréttir

„Einu húsi of mikið að snjóflóðið náði þangað inn“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir að það sé einu húsi of mikið að snjóflóð sem féll úr Innra-Bæjargili á Flateyri á tólfta tímanum í gærkvöldi hafi lent á íbúðarhúsinu við Ólafstún 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×