Innlent

Ný umferðarlög hafa tekið gildi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Úr myndbandi lögreglunnar þar sem minnt er á að ný umferðarlög hafa tekið gildi.
Úr myndbandi lögreglunnar þar sem minnt er á að ný umferðarlög hafa tekið gildi.

Ný umferðarlög sem Alþingi samþykkti á síðasta ári tóku gildi í gær.  

Líkt og Vísir fjallaði um fyrir um tveimur vikum gætir ýmissa nýmæla í lögunum, til dæmis er varðar heimild yfirvalda til þess að takmarka eða banna umferð vegna mengunar sem og heimild til þess að hækka hámarkshraða í 110 kílómetra á klukkustund á vegum þar sem akstursstefnur eru aðgreindar og aðstæður að öðru leyti leyfa.

Ökumenn og aðrir vegfarendur þurfa jafnframt að hafa ýmislegt í huga núna á nýja árinu, til dæmis að nú verður í fyrsta sinn með lögum lagt bann við akstri gegn rauðu ljósi. Slíkt bann hefur hingað til aðeins verið að finna í reglugerð.

Samgöngustofa í samstarfi við lögregluna gaf út myndbandið sem sjá má hér fyrir neðan um þann þátt nýju umferðarlaganna sem snýr að ökuljósum, sem er efnislega samhljóða eldri umferðarlögum en eldra ákvæði gert skýrara.

Á vef Samgöngustofu má nálgast frekari upplýsingar um hvaða breytingar felast í lögunum.



Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×