Innlent

Dæmi um að lyf séu leyst út af ókunnugum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Forstjóri Lyfjastofnunar brýnir fyrir fólki að gefa ekki upplýsingar um lyfjanotkun á samfélagsmiðlum. Dæmi eru um að óprúttnir aðilar leysi út lyf annarra og að réttmætir eigendur lyfjanna sitji uppi lyfjalausir.

Á dögunum lenti kona í því að lyf hennar voru leyst út af ókunnugri manneskju. Sú sem að verkinu stóð framvísaði sínum eigin skilríkjum og skrifaði undir móttöku lyfjanna með eigin nafni og kennitölu og gat þar með leyst út lyfin. Réttmætur eigandi lyfjanna situr því eftir lyfjalaus.

Forstjóri Lyfjastofnunar segir að í ljósi svokallaðs umboðsmannaákvæðis í lyfjalögum, geti aðrir en sjúklingurinn sjálfur leyst út lyf sé hann með upplýsingar um heiti lyfsins, heimilisfang og nafn viðkomandi. Vegna ákvæðisins sé hægt að misnota úttekt á lyfjum annarra.

„Það er alltaf möguleiki á því og það er bara mjög mikilvægt að brýna fyrir fólki að vera á varðbergi. Vera ekki að deila reynslusögum um lyfin sín undir nafni á samfélagsmiðlum og í einhverjum hópum,“ sagði Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.

Hún segir mikilvægt að starfsmenn apóteka að bera virðingu fyrir persónugreinanlegum gögnum sjúklinga og kalli ekki upp kennitölur og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar.

Þá bendir hún á að fólk geti haft samband við Lyfjastofnun og takmarkaðþað hverjir leysi út lyf þeirra.

„Það er í farvatninu samvinnuverkefni á milli okkar og embætti Landlæknis að það sé hægt að haka viðí Heilsuveru hvort þú viljir leyfa einhverjum að sækja lyfin þín eða ef þú vilt ekki að neinn annar en þú geti sótt lyfin þín,“ sagði Rúna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×