Innlent

Börn í Eyjum fá ekki að mæta ókembd í skólann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það er ljóst hvað foreldrar barna í 1. bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja verða að gera í kvöld.
Það er ljóst hvað foreldrar barna í 1. bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja verða að gera í kvöld. Vísir/Vilhelm

Foreldrar barna í grunnskólum þekkja vel að fá lúsapósta þegar kennsla hefst á haustin og eftir áramót. Er þar minnt á lúsina og mikilvægi þess að foreldrar barna kembi hár þeirra.

Foreldra barna í 1. bekk við Grunnskóla Vestmannaeyja fengu nokkuð harðari orðsendingu í dag. Í tölvupósti, sem Eyjafréttir greina frá, segir:

„Lúsin heldur áfram að poppa upp hjá okkur í skólanum og því þurfum við að gera róttækar aðgerðir.

Í dag fóru nemendur heim með blað þar sem þið verðið að kemba börnin og kvitta fyrir að þið hafið kembt barnið. Þessu blaði á að skila á morgun, föstudag 10. janúar.

Ef það eru einhverjir sem skila ekki blaðinu á morgun, þá verður hringt í þá foreldra og þeir beðnir um að sækja barnið í skólann.“

Óskar Jósúason aðstoðarskólastjóri segir við Eyjafréttir að það komi reglulega upp í árgöngum að börn losni ekki við lúsina. Þá þurfi að fara í samstillt átak foreldra og skóla. En þetta sé sem betur fer ekki algengt.

Því liggur fyrir að þau börn í 1. bekk sem mæta í skólann í fyrramálið án undirritaðs blaðs um kembun verða send heim með foreldrum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×