Innlent

Eins metra reglan í skólum gerir það að verkum að HÍ og HR geta boðið nemendum upp á meira staðnám en útlit var fyrir

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Eins metra reglan í skólum gerir það að verkum að Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík geta boðið nemendum upp á aukið staðnám. Báðir skólar segjast þurfa fjárstuðning frá ríkinu.

Í nýjum sóttvarnarreglum sem taka gildi á morgun er kveðið á um eins metra fjarlægðrarreglu í skólum.

Rektor Háskólans í Reykjavík segir eins metra regluna veita skólum aukið svigrúm, en flestir voru byrjaðir að undirbúa skólahald vetrarins með tilliti til tveggja metra reglunnar. Sviðsstjóri kennslumála við Háskóla Íslands tekur undir þetta.

„Þetta auðveldar þetta verulega fyrir okkur. Við vorum búin að reikna með að það væri sirka þrjátíu prósent af nemendum sem við kæmum fyrir í skólanum en nú eru þeir um 40 prósent,“ sagði Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslumála við Háskóla Íslands.

„Munurinn verður hversu margir komast að á sama tíma. Hversu mikið þarf að vera stafrænt og hversu oft við þurfum að bjóða upp á verklega tíma eftir því hverjar fjarlægðarreglurnar eru í hverrt skipti,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

„Þetta breytist aðallega þannig að við getum aukið staðnám,“ sagði Róbert.

Lagt er upp með að fyrirlestrar verði á rafrænu formi í skólunum.

„Fyrir verklega tíma, fyrir samræður og allt þetta sem krefst þess að vera á staðnum. Þar ætlum við að nota húsnæðið til að hleypa nemendum eins mikið á staðinn og hægt er,“ sagði Ari Kristinn.

„Við setjum nýnema í forgang og við setjum líka í forganga að allir nemendur skólans fái einhverja staðkennslu,“ sagði Róbert.

Vegna fjöldatakmarkanna þurfa báðir skólar að brjóta bekki upp í smærri hópa. Slíku fylgir aukinn kostnaður.

„Aukinn kostnaður, aukin vinna og aukið umstang. Við þurfum að kenna stærri hluta dagsins. Nýta húsnæðið eins vel og mögulegt er. Þetta er alls ekki einfalt verkefni,“ sagði Ari Kristinn.

„Það er alveg á hreinu að við munum lenda í meiri kostnaði út af þessu. Það eru viðræður á milli rektors og menntamálayfirvalda um aukið fjármagn,“ sagði Róbert.

„Þannig að við treystum á gott samstarf við stjórnvöld þannig að háskólarnir beri ekki skertan hlut frá borði og við getum haldið áfram að sinna okkar starfi eins vel og hægt er,“ sagði Ari Kristinn.

Ekki er komið í ljós hve mikils fjárstuðnings er þörf á.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.