Innlent

Þriggja sjö ára gamalla drengja var leitað í gær

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan aðstoðaði foreldra drengjanna við leit og fundust þeir stuttu síðar á Klambratúni.
Lögreglan aðstoðaði foreldra drengjanna við leit og fundust þeir stuttu síðar á Klambratúni. Vísir/Vilhelm

Leit var gerð á þremur sjö ára gömlum drengjum í gærkvöldi sem höfðu farið í Öskjuhlíð að leika sér með talstöðvar en ekki skilað sér aftur heim. Foreldrar og ættingjar voru farnir að leita um fjórum klukkustundum eftir að drengirnir sáust síðast og auglýstu einnig eftir drengjunum á Facebook. Um hálftíma eftir að lögregla hóf aðstoð við leit fundust drengirnir við Klambratún að leik og amaði ekkert að þeim. Samkvæmt dagbók lögreglu aðstoðuðu þrettán lögreglumenn við leitina og til stóð að óska eftir aðstoð björgunarsveita þegar drengirnir fundust.

Eftirlit var haft með átta veitingastöðum í Kópavogi og Breiðholti. Flestir staðir voru með fullnægjandi sóttvarnir. Starfsfólki var leiðbeint og aðstoðað við að gera betur ef óskað var eftir því.

Björgunarsveitin var kölluð út á miðnætti í gær til að aðstoða mann að komast niður af Helgafelli. Maðurinn rataði ekki aftur niður af fjallinu og fór björgunarsveit því og leiðbeindi honum niður. Þá var brotist inn í fyrirtæki í Laugardalnum þegar klukkan var að ganga tvö í nótt. Rúða í hurð var brotin, þjófarnir fóru inn og stálu skiptimynt.

Þá var bifreið stöðvuð í Laugardal vegna gruns um að ökumaður værri undir áhrifum fíkniefna. Var hann einnig grunaður um að hafa fíkniefni í sinni vörslu. Önnur bifreið var stöðvuð í miðbænum vegna gruns um akstur gegn einstefnu, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×