Enginn greindist með kórónuveiruna sem veldur Covid-19 innanlands í gær. Þrír greindust hins vegar með virk smit við landamæraskimun, einn greindist með mótefni og beðið er niðurstöðu úr mótefnamælingu hjá tveimur til viðbótar.
289 sýni voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og 3.105 á landamærunum. Þá voru 56 sýni greind hjá Íslenskri erfðagreiningu. Samkvæmt upplýsingum á covid.is eru 114 í einangrun eins og í gær og 839 eru í sóttkví.
Tveir liggja nú á sjúkrahúsi og einn á gjörgæslu.
Enn eru virk smit í öllum landshlutum, langflest á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru einnig langflestir, eða 547, í sóttkví. Þar á eftir kemur Suðurland, þar sem 98 eru í sóttkví og fækkaði þeim um tvo milli daga.
Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, lækkar úr 25,9 niður í 24,8. Nýgengi landamærasmita fer úr 3,5 í 4,6.