Innlent

Átta af fjór­tán veitinga­húsum voru með við­eig­andi sótt­varna­ráð­stafanir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan heimsótti fjórtán veitingastaði í gærkvöldi. Aðeins einn þeirra var með óviðunandi sóttvarnarráðstafanir og var skrifuð skýrsla um málið.
Lögreglan heimsótti fjórtán veitingastaði í gærkvöldi. Aðeins einn þeirra var með óviðunandi sóttvarnarráðstafanir og var skrifuð skýrsla um málið. Vísir/Vilhelm

Fjórtán veitingahús voru heimsótt í miðborginni af lögreglu í gærkvöldi. Kannað var hvort ráðstafanir varðandi sóttvarnir og tveggja metra reglu væru sem skildi. Átta staðir af þessum fjórtán voru með sín mál í mjög góðu ástandi samkvæmt dagbók lögreglu en fimm staðir þurfa að gera úrbætur og bæta skipulag.

Einn staður hafði ekki gert viðunandi ráðstafanir til að tryggja sóttvarnarreglur og tveggja metra reglu og var skrifuð skýrsla um brotið. Of margir einstaklingar voru inni á staðnum og lítið sem ekkert bil var á milli gesta.

Á stöðunum sem bæta þurfti sóttvarnir voru fáir þegar lögreglu bar að garði en fram kemur að ef fleiri gestir hefðu verið á stöðunum hefði verið óvíst hvort aðstæður hefðu þá getað talist viðunandi. Starfsmönnum voru veittar ráðleggingar af lögreglu um hvernig gera mætti betur.

Fátt annað kom á borð lögreglu í nótt. Tilkynnt var um þjófnað á sjötta tímanum í gær úr spilakassa í söluturni í Árbæ. Maðurinn sem framdi þjófnaðinn skemmdi spilakassa og stal úr honum peningum og sást til hans á upptöku öryggismyndavéla. Þá barst tilkynning á sjötta tímanum í gærkvöldi um ofurölvi mann við veitingahús í miðbænum, hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu og var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu.

Tvö umferðarslys eða -óhöpp urðu í gærkvöldi. Umferðarslys varð í Hafnarfirði á áttunda tímanum þegar maður í ökunámi datt af bifhjóli. Hann er mögulega rifbeinsbrotinn og var hann fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Þá óku þrjár bifreiðar á umferðarmerki/vegstiku á tólfta tímanum á Reykjanesbrautinni. Skemmdir urðu á hjólbörðum allra bíla en engin slys urðu á fólki.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.