Einn starfsmaður Samgöngustofu greindist með kórónuveiruna í gær. Þetta staðfestir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri stofnunarinnar, í samtali við Vísi. Einhverjir starfsmenn stofnunarinnar eru nú í úrvinnslusóttkví, en hún segir lán í óláni að fámennt sé á Samgöngustofu um þessar mundir vegna sumarleyfa.
Þórhildur segir smitið hafa greinst í gærkvöldi. Hún segir að þegar tilkynnt var um hertar samkomutakmarkanir hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana og áætlun stofnunarinnar frá því faraldurinn stóð sem hæst í vor tekin í gagnið. Þá segir hún allar áætlanir miða að því að sem minnst röskun verði á starfsemi Samgöngustofu.
Þá segir hún enga starfsmenn stofnunarinna hafa verið senda í sóttkví af smitrakningarteymi Almannavarna enn sem komið er. Starfsfólk sem gæti hafa verið í sambandi hefur þó ekki mætt til vinnu síðan viðkomandi greindist.
„Nema það sem kallast úrvinnslusóttkví, á meðan ekki er komin niðurstaða um hvort einhver þarf að fara í sóttkví.“
Hún segir það lán í óláni hversu fámennt sé á stofnuninni þessa dagana.
„Það vill svo heppilega til í þessu óláni að það eru margir í sumarfríi. Það má segja að það hjálpi okkur aðeins,“ segir Þórhildur og bætir við að mun fleiri væru við vinnu hjá stofnunninni þegar mest lætur.