Lífið

Perlur Íslands: „Ég fann hvernig brjóstið fylltist af hamingju“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Það eru fáar myndir til af Aldísi á ferðalagi, þar sem hún er alltaf með myndavélina.
Það eru fáar myndir til af Aldísi á ferðalagi, þar sem hún er alltaf með myndavélina. Mynd úr einkasafni

„Mig langar að segja Vestfirðir en þeir innihalda heldur betur heilan fjársjóð af Náttúruperlum,“ segir ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir um sína uppáhalds perlu hér á landi.

„Ég er meðal annars ættuð að vestan, sem og norðan og sunnan. En Afi minn kemur af Vestfjörðum.“

Afi AldísarMynd/Aldís Pálsdóttir

„Það hefur verið fjölskylduhefð hjá okkur niðjum hans, að fara í góða helgarferð Vestur með honum. Við leigjum saman stórt hús / ferðakofa, þar sem er pláss helst fyrir alla. Við getum verið allt að 50 til 60 manns - fjölskyldan, og bestu vinir afa koma með.“

Frá ÖnundarfirðiMynd/Aldís Pálsdóttir

„Afi skipuleggur gönguferðir um landið í nágrenni við gististaðinn sem allir taka þátt í, sem vilja og svo er sameiginlegur kvöldmatur og yngsta fólkið sér um kvöldskemmtun. Við erum þá ýmist að ganga á fjöll eða ganga fyrir firði, svo ég nefni eitthvað. Einu sinni sigldum við að Hesteyri, og gengum þar yfir í Aðalvík sem var algjörlega einstakt, því þangað er ekki hægt að koma nema með bát, svo það er lítið um mannaferðir.“

Mynd/Aldís Pálsdóttir

„Ég hef ekki ennþá séð allar perlurnar sem Vestfirðirnir hafa upp á að bjóða. En þær sem ég hef fengið að upplifa í gegnu þessar fjölskylduferðir þykir mér vænt um að eiga í minningunni og sérstaklega vegna þess að við eigum öll þessar minningar með afa. Og án hans, værum við ekki að ferðast saman í svona stórum hópi - og þar af leiðandi að kynnast hvort öðru og landinu betur. Afi segir okkur hinar ýmsu sögur af forfeðrum okkar í hverjum göngutúr, við finnum jafnvel gamlar tóftir, því yfirleitt er hægt að tengja þá staði sem við veljum, í beinan legg til okkar. Og ef ekki okkar, þá hefur Fjalla Eyvindur verið þar.“

Við höfum nokkrum sinnum gist í Holti, í Önundarfirði sem er ævintýralegt umhverfi.

Þá er hefð hjá ungafólkinu, að hoppa af Holtsbryggju út í kaldan sjóinn.

Ef þú myndir spyrja börnin mín, þá væri það besta upplifun allra tíma.

Mynd/Aldís Pálsdóttir

„En ef ég á að nefna bara einn stað þá langar mig að segja Rauðasandur.

Rauðasandur, sem einnig er nefndur Rauðisandur í nefnifalli, er 10 km löng sandströnd staðsett sunnarlega á Vestfjarðarkjálka, fyrir austan Látrabjarg. Það er einföld skýring á litnum á Rauðasandi. Sandurinn fær lit sinn af skeljum hörpudisks (Chlamys islandica). 

RauðisandurMynd/Aldís Pálsdóttir

„Ég varð orðlaus, þegar ég kom þangað og langaði alls ekki að fara þaðan. Mér leið eins og ég væri í kvikmyndaveri.

Við vorum eina fólkið á sandinum, og það var sól en samt skýjahnoðrar á bláum himni, sem speglaðist á sléttum sjónum sem svo kyssti appelsínugula ströndina. Algjörlega magnað.“

RauðisandurMynd/Aldís Páls

„Ég átti ekki til orð yfir því hversu fallegt væri allt í kringum okkur.. Börnin léku sér í flæðamálinu, og ég fann hvernig brjóstið fylltist af hamingju. Ég vil endilega koma þangað aftur í sumar og til að gera ennþá meira úr ferðalaginu, er algjör snilld að koma við í Flatey á leiðinni vestur.“

FlateyMynd/Aldís Pálsdóttir

„Ég elska að ferðast um landið okkar, og safna minningum með fólkinu mínu. Árbók Ferðafélags Íslands 2020, er einmitt um þennan kjálka af Vestfjörðum. Rauðasandshreppur hinn forni. Ég mæli með að skoða hana.“ 

Mynd/Aldís Pálsdóttir

Góða ferð

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.