Innlent

Reykja­víkur­mara­þoninu af­lýst

Stefán Ó. Jónsson og Birgir Olgeirsson skrifa
Frá Reykjavíkurmaraþoninu 2018.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu 2018. vísir/vilhelm

Ekkert verður af Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, sem fara átti fram laugardaginn 22. ágúst næstkomandi. Þetta staðfestir Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri ÍBR, í samtali við fréttastofu.

Frímann segir að nýlegar sóttvarnaráðstafanir, sem gilda til 13. ágúst hið minnsta, hafi sett skipulagningu mótsins í uppnám. Þær fela meðal annars í sér 100 manna samkomuhöft og kröfu um tveggja metra fjarlægðarmörk milli fólks. Fari svo að ráðstafanirnar verði framlengdar segir Frímann ljóst að ómögulegt verði að halda maraþonið. Til að halda fólki ekki í óvissu hafi því verið tekin endanlega ákvörðun um að blása hlaupið af.

Tæplega fjögur þúsund manns höfðu skráð sig til leiks í maraþonið í ár. Þau munu geta fengið skráningargjald sitt endurgreitt, óski þau þess. Skráning þeirra muni að óbreyttu færast yfir á næsta ár. Fyrirkomulag endurgreiðslu verður kynnt fljótlega. 

Lengi vel stóð til að skipta keppendum upp í hólf sem myndu miða við fjöldatakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins. Frímann segir sóttvarnalækni hafa boðað í vor að mögulega færu fjöldatakmarkanirnar upp í 2000 manns síðsumars.

Þegar lítið bólaði á breytingum var farið í að skipuleggja hlaupið út frá fimm hundruð manna hollum, líkt og fjöldatakmarkanir kváðu á um. Þegar sú takmörkun fór niður í 100 manns í síðustu viku og tveggja metra reglan gerð að skyldu var ljóst að ekki væri mögulegt að halda hlaupið.

Fréttin hefur verið uppfærðAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.