Erlent

Dauðadómur yfir sprengjumanninum í Boston ógiltur

Kjartan Kjartansson skrifar
Dzhokhar Tsarnaev var um tvítugt þegar hann og eldri bróðir hans sprengdu tvær sprengjur við endamark Boston-maraþonsins árið 2013. Hann er nú 27 ára gamall.
Dzhokhar Tsarnaev var um tvítugt þegar hann og eldri bróðir hans sprengdu tvær sprengjur við endamark Boston-maraþonsins árið 2013. Hann er nú 27 ára gamall. AP/Bandaríska alríkislögreglan FBI

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum ógilti í gær dauðadóm yfir Dzhokhar Tsarnaev vegna sprengjuárásarinnar á Boston-maraþonið árið 2013. Dómarinn í máli hans var talinn hafa vanrækt að ganga úr skugga um að kviðdómendur væru ekki hlutdrægir gegn Tsarnaev.

Rétta þarf aftur til að ákvarða refsingu Tsarnaev eftir að þrír dómarar við alríkisdómstól ógiltu dauðadóminn sem hann hlaut árið 2015. Töldu þeir að aldrei hefði átt að rétta í málinu í Boston á sínum tíma.

Jafnvel þó að Tsarnaev verði ekki dæmdur til dauða mun hann sæta lífstíðarfangelsi, að sögn AP-fréttastofunnar.

Saksóknarar geta krafist þess að allir dómarar áfrýjunardómstólsins taki afstöðu til málsins eða áfrýjað málinu beint til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Þeir eru nú sagðir ráða ráðum sínum um hvernig þeir bregðast við.

Þrír féllu og fleiri en 260 manns særðust þegar Tsarnaev og eldri bróðir hans, Tamerlan Tsarnaev, sprengdu tvær sprengjur við endamar maraþonsins. Tamerlan féll í skotbardaga við lögreglu nokkrum dögum eftir sprengjuárásina í apríl árið 2013. Dzhokhar, sem var handtekinn eftir mikla leit í nágrenni Boston, er haldið hámarksöryggisfangelsi í Colorado.

Saksóknarar héldu því fram að bræðurnir hefðu framið árásirnar til þess að refsa Bandaríkjunum fyrir stríðsrekstur sinn í múslimalöndum. Bræðurnir eru af tsjétsjénskum ættum. Verjendur Dzhokhar viðurkenndu að bræðurnir hefðu sprengt sprengjurnar en héldu því fram að taka ætti vægar á yngri bróðurnum því að sá eldri hefði verið heilinn á bak við árásina.

Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi úrskurðinn í gær og kallaði Tsarnaev meðal annars „skepnu“. Kallaði hann úrskurðinn „fáránlegan“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.