Innlent

Ekki ólíklegt að áfram verði hert og slakað þar til bóluefni kemur á markað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alma Möller, landlæknir.
Alma Möller, landlæknir. Vísir/vilhelm

Það kæmi ekki á óvart þótt ýmist þyrfti að slaka á aðgerðum vegna kórónuveirunnar og herða þær á ný þangað til bóluefni við veirunni er komið á markað. Þetta kom fram í máli Ölmu Möller á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis.

Alma sagði að vegna þeirrar stöðu sem uppi er núna þurfi allir að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart einkennum. Hún minnti á að helstu einkenni sem borið hefur á undanfarið eru hálssærindi, hiti, slappleiki, höfuðverkur, hósti og andþyngsli. Þá minnti hún á sjaldgæfari einkenni eins og tap á bragð- og lyktarskyni, ógleði, uppköst og niðurgangur. Fólk með einkenni haldi sig heima og veri ekki á ferðinni fyrr en neikvætt sýni liggi fyrir.

Þá þakkaði Alma almenningi fyrir að hafa brugðist vel við hertum aðgerðum.

„Mér finnst fólk almennt sýna mikinn skilning og ég veit að það mun enginn láta sitt eftir liggja, enda mikið í húfi. […] Við þurfum öll að sýna yfirvegun, tala af varfærni og skynsemi, notum ekki stærri orð en þörf er á og völdum ekki öðrum kvíða. Einhverjum finnst of lítið gert, öðrum of mikið en sóttvarnalæknir reynir að fara bil beggja og það hefur alltaf verið helsta markmiðið að grípa ekki til harðari aðgerða en þörf er á,“ sagði Alma.

„Þessi veira er sjálfri sér samkvæm. Hún rís upp þegar slakað er á og það kæmi ekki á óvart þótt við yrðum í því að herða og slaka þar til bóluefni er fram komið.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.